Viðskipti fjárfesta, sem gerðu ráð fyrir sterkari bandaríkjadal og hærri ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa í forsetatíð Donald Trump, hafa ekki skilað tilætluðum árangri á þessu ári.

Styrking dollarans og hækkun ríkisskuldabréfa hefur látið á sér standa, þar sem fjárfestar hafa tekið varfærnari afstöðu vegna efnahagslegra áhrifa tollastríðs Bandaríkjastjórnar.

Bandaríkjadalur hefur veikst og skuldabréfamarkaðurinn hækkað frá því í byrjun janúar, þvert á væntingar margra fjárfesta. Flestir gerðu ráð fyrir að tollastefna Trump og skattalækkanir myndu viðhalda háu verðbólgu- og vaxtastigi.

„Þrátt fyrir hvernig þetta lítur út núna, þá ef við skoðum þróunina frá upphafi árs, hafa mörg af þessum [Trump-tengdum] viðskiptum ekki gengið eftir,“ segir Jerry Minier, meðstjórnandi gjaldeyrisviðskipta hjá Barclays í samtali viðFinancial Times. „Það veldur því að fjárfestar eru að endurmeta stöðuna.“

Fjárfestar hafa dregið úr áhættu sinni vegna væntinga um harða tolla, en tollarnir hafa reynst mildari en óttast var. Hins vegar veldur óvissan um framhald tollastríðsins áhyggjum og gæti grafið undan trausti til bandaríska hagkerfisins.

Í byrjun árs hafði bandaríkjadalurinn hækkað um 8% frá september til desember 2024, og margir fjárfestar höfðu tekið langa stöðu í dollar í fyrsta sinn síðan 2017. Nú hefur gengi dollarans hins vegar fallið um 0,4% á þessu ári.

Ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa, sem hafði náð 4,8% í janúar, hefur lækkað aftur í 4,54%, þar sem áhersla markaðarins hefur færst frá verðbólguótta yfir í áhyggjur af því að hagvöxtur í Bandaríkjunum gæti verið að hægja á sér.

„Það er undirliggjandi ótti við að hagvöxtur sé að hægja,“ segir Torsten Slok, aðalhagfræðingur hjá Apollo. „Tollastríðið gæti haft neikvæð áhrif á hagvöxt.“

Í mánuðinum gaf Trump eftir á hótunum um víðtæka tolla á innflutning frá Mexíkó og Kanada og veitti löndunum 30 daga frest. Hins vegar fylgdi hann eftir með 10% viðbótartollum á Kína og gaf til kynna að Japan gæti einnig þurft að sæta nýjum tollum til að draga úr viðskiptahalla við Bandaríkin.

Þróunarmarkaðir hafa gengið gegn væntingum undanfarna mánuði. Gengi pesóa í Chile hefur styrkst um meira en 3% síðan í janúar, en kólumbískur pesói og brasilískur real hafa hækkað um meira en 6% gagnvart dollar.

Sérfræðingar Bank of America hafa tekið jákvæða afstöðu til þróunarmarkaða og telja að væntingar um sterkan dollar séu orðnar of miklar. „Það er mjög öfgafull staða á markaðnum, og stór hluti tollafréttanna er þegar verðlagður inn,“ segir David Hauner, yfirmaður skuldabréfastefnu fyrir þróunarmarkaði hjá bankanum.

Miðbankar í þróunarlöndum hafa einnig aukið svigrúm til að lækka vexti til að styðja við hagvöxt eftir miklar vaxtahækkanir á undanförnum árum. Í síðustu viku lækkuðu Mexíkó, Tékkland og Indland stýrivexti.

„Gjaldmiðlar í mörgum þróunarlöndum eru orðnir afar ódýrir,“ segir einn sjóðstjóri sem nýverið kom frá Brasilíu í leit að vanmetnum eignum. „Jafnvel þótt dollarinn veikist ekki frekar, er staðan orðin hagstæð.“