Hluthafafundur hjá Festi stendur nú yfir í höfuðstöðvum félagsins. Kosið verður um nýja stjórn félagsins í kjölfar uppsagnar Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra og óeiningar meðal hluthafa um ákvörðunina.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, formaður tilnefningarnefndar sagði á fundinum að ólík sjónarmið hefðu komið fram meðal stærstu hluthafa félagsins. Sumir hefðu viljað skipta öllum stjórnarmönnum út á meðan öðrum hafi fundist óþarfi að boða til fundarins yfirhöfuð.

Samtals fjórtán einstaklingar buðu sig fram í stjórn félagsins, þar með talið sitjandi stjórnarmenn. Af þessum fjórtán tilnefndi tilnefningarnefnd alla fimm stjórnarmenn auk Björgólfs Jóhannssonar, Magnúsar Júlíussonar, Sigurlínu Ingvarsdóttur og Þórdísar Jónu Sigurðardóttur.

Ótækt að segja ekki satt og rétt frá

Einar Sigurðsson fjárfestir tók til máls og gagnrýndi fyrirkomulag tilnefningarnefndar. Hann sagði ferlið vera ógegnsætt. „Við sjáum ákveðna galla og það verður til einhvers konar bil á milli hluthafa. Ferlið er í rauninni ógegnsætt.“ Hann sagðist ætla að leggja fram tillögu á næsta hluthafafundi að gera tvær breytingar á tilnefningarnefnd. Annars vegar þá breytingu að í tilnefningarnefnd sitji ekki stjórnarmaður frá félaginu og hins vegar að nefndin tilnefni fleiri en fimm í stjórn, eins og þeir gerðu nú.

Hann segir mikilvægt að hluthafar treysti stjórn félagsins. „Stjórn hefur fullan rétt á því að taka allar þær ákvarðanir sem hún vill taka. Það dregur aftur á móti ferlið í efa þegar stjórn er valin í ógegnsæju ferli. Það verður að vera hægt að treysta ferlinu. Mér fannst það traust hverfa þegar mér fannst stjórn taka ákvörðun sem ég er að vísu ósammála en svo var ákveðið að segja ekki satt og rétt frá, bæði varðandi aðdraganda og afleiðingar. Það finnst mér ótækt í almenningshlutafélagi.“

Fjórða stoðin?

Guðjón Reynisson, sitjandi stjórnarformaður, sagði á fundinum að ákvörðun stjórnar að láta Eggert fara hafi verið einróma. „Okkar mat er að fyrir nýjan og spennandi kafla fyrirtækisins þurfi nýjan leiðtoga fyrir félagið, með styrkleika á þeim sviðum sem nú mun reyna á.“

Hann sagði að framundan þyrfti að marka stefnu til næstu fimm ára. Skoða þyrfti hvort bæta ætti við fjórðu stoðinni undir rekstur félagsins, á sviði sem félagið starfar ekki á í dag. Þar nefndi Guðjón meðal annars fjártækni og fjárfestingar í stafrænni þróun.

Hann bætti við að til að fá réttan umsækjanda í forstjóra Festi þurfi að sameinast og skapa frið. „Því að það er ekki bara við sem erum að velja forstjóra, hann eða hún þarf að velja að vinna með okkur (í stjórn).“