Heilsumarkþjálfinn Agnar Bragi Magnússon rekur æfingahópinn Pabbatipz – Heilsu og lífstílsráð Braga fyrir upptekna pabba en þjálfunin er ætluð feðrum sem eru komnir yfir þrítugt og finna fyrir þreytu, orkuleysi og lélegri sjálfsmynd.

Hann segist leggja áherslu á sveigjanleika og raunverulega til að hjálpa pöbbum sem vilja ná betri heilsu og sjálfstrausti án þess að fórna mikilvægum hlutum í lífinu, eins og fjölskyldutíma og uppáhalds mat.

„Ég skil hvað það þýðir að vera upptekinn faðir með takmarkaðan tíma, enda er ég sjálfur í sömu sporum. Þetta prógramm var byggt á eigin reynslu af því að missa 20 kg og halda því af sér til frambúðar.“

Agnar hefur spilað fótbolta frá ungum aldri og spilaði upp alla yngri flokka hjá Fylki en þurfti svo að enda ferilinn árið 2015 vegna meiðsla. Hann spilaði einnig á Selfossi og var meðal annars í háskólabolta frá 2011-2012 samhliða mastersnámi í markaðsfræði.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að viðtökurnar frá feðrum sem hafi leitað til hans hafi verið afar jákvæðar og að árangur þeirra sé mikill innblástur fyrir sig líka.

„Þeir feður sem koma til mín eru oft að glíma við svipaðar áskoranir. Þeir vilja léttast, bæta heilsuna og endurheimta orkuna sem þeir finna að hafi minnkað. En það sem kemur þeim á óvart er að þjálfunin mín snýst ekki bara um að léttast, heldur um að byggja upp betri lífsstíl, jafnvægi og sjálfstraust. Ég heyri oft frá þeim að nálgunin mín, sem tekur tillit til fjölskyldulífs, tímaþrengsla og raunverulegra aðstæðna, hafi gert gæfumuninn.“

Svipaðir hópar þekkjast erlendis, sérstaklega í löndum þar sem markvissar lífsstílsbreytingar og heilsuþjálfun eru vel þekkt hugtök en Agnar segist hafa aðlagað sinn rekstur að íslenskum aðstæðum.

„Í raun má segja að ég sé frumkvöðull að því leytinu til að ég býð ekki bara lausnir heldur nýja nálgun sem er hönnuð sérstaklega fyrir íslenska feður. Með því að nýta mína þekkingu og reynslu hef ég skapað prógramm sem er einstakt að því leytinu til að það talar beint til íslenskra feðra og áskorana þeirra.“

Andleg heilsa karlmanna og áskoranir

Agnar segir að hreyfing spili gríðarlega stórt hlutverk í andlegri heilsu karlmanna og að líkamleg virkni stuðli að losun endorfína og annarra góðra hormóna sem dragi úr streitu, kvíða og þunglyndi.

Agnar segist sjálfur þurfa oft að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Fyrir marga karlmenn getur hreyfing verið leið til að takast á við áskoranir og finna jafnvægi. Umræðan um andlega heilsu karlmanna er enn í mótun og oft fylgja henni fordómar eða skömm, sem hamlar mörgum í að leita sér hjálpar. Við þurfum að halda áfram að opna þessa umræðu, meðal annars með því að leggja áherslu á mikilvægi hreyfingar sem hluta af heildrænni nálgun á heilsu. Það er ekki bara líkaminn sem græðir á hreyfingu, heldur hugurinn líka.“

Hann segir að helstu áskoranir þegar kemur að rekstri snúi oft að tímastjórnun, fjármálum og samkeppni. Þá þurfi hann sjálfur að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs, sérstaklega þegar vinnan krefst mikils tíma og viðskiptin séu óstöðug.

„Fjárhagsleg áskorun, eins og að tryggja viðskipti og skapa stöðuga tekjustrauma, er líklegast stóri þátturinn í ljósi mikillar samkeppni. Einnig er það pínu krefjandi fyrir mig að finna jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs einmitt vegna þess hvað það er skemmtilegt í vinnunni.“

Agnar segir að lokum að það sé gott að halda sig á toppnum í samkeppni, sérstaklega í síbreytilegu umhverfi þar sem nýjar tæknilausnir og markaðsaðferðir séu stöðugt að birtast.

„Þetta kallar á skýr markmið, gott skipulag og vilja til að læra og aðlagast. Að leita eftir leiðsögn eða stuðningi, eins og frá ráðgjöfum eða þjálfurum, getur einnig verið lykill að því að takast á við þessar áskoranir.“