Lögð verður tillaga fyrir hluthafa Alvotech á aðalfundi líftæknilyfjafyrirtækisins, sem fer fram 7. júní næstkomandi, um að Hjörleifur Pálsson taki sæti í stjórn félagsins. Hann yrði kjörinn til eins árs.

Verði tillagan samþykkt mun aðalmönnum í stjórn Alvotech fjölga úr átta í níu. Félagið hefur haft heimild til að hafa níu aðalmenn í stjórn en eitt sæti hefur ekki verið nýtt til þessa.

Hinir átta sitjandi stjórnarmenn hjá Alvotech voru allir kjörnir til þriggja ára þegar félagið var skráð í Nasdaq kauphöllina í New York í júní 2022 og lýkur því kjörtímabili þeirra á aðalfundi félagsins á næsta ári. Eftirtaldir einstaklingar sitja í stjórn Alvotech í dag:

  • Róbert Wessman
  • Árni Harðarson
  • Ann Merchant
  • Lisa Graver
  • Linda McGoldrick
  • Richard Davies
  • Tomas Ekman
  • Faysal Kalmoua

Setið í stjórn Lotus í níu ár

Hjörleifur, sem var fjármálastjóri Össurar á árunum 2001-2013, kemur þegar að öðru alþjóðlegu lyfjafyrirtæki sem telur Róbert Wessman sem stjórnarformann og einn af stærstu hluthöfum. Hjörleifur hefur setið í stjórn taívanska samheitalyfjafyrirtækisins Lotus Pharmaceutical frá árinu 2015. Markaðsvirði Lotus, aðallista kauphallar Taívan, nemur yfir 300 milljörðum króna.

Hjörleifur situr einnig í stjórn Festi, Brunns vaxtarsjóðs slhf., Ankra ehf., Brandr Global ehf. og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðana á Íslandi (UNICEF). Hann er jafnframt fyrrum stjórnarformaður Sýnar og Háskólans í Reykjavík.