Hampiðjan var stofnuð í miðri kreppu á fjórða áratug síðustu aldar. Fyrirtækið hefur haldið sjó allt síðan og þjónað íslenskum sjávarútvegi af kostgæfni í hartnær eina öld. Í dag er Hampiðjan stærsta veiðarfærafyrirtæki heims.
Hampiðjan er vafalaust þekktust fyrir framleiðslu á netum og köðlum en færri vita að nýsköpun inni í þessu rótgróna fyrirtæki hefur verið drifkraftur velgengni þess en fyrirtækið er með um 30 einkaleyfi.
Hampiðjan framleiðir tóg sem er sterkara en stál og nýjasta afurðin er tóg með ljósleiðara, en sú vara býður upp á ótrúlega möguleika. Auk þess að þjónusta sjávarútvegsfyrirtæki hér heima og fyrir utan landsteinana framleiðir Hampiðjan búnað fyrir fiskeldi og olíuiðnaðinn. Þá nota japanskir og kínverskir vísindamenn búnað frá Hampiðjunni við rannsóknir á flóðbylgjum í Kyrrahafi.
Allt síðan Hjörtur Erlendsson settist í stól forstjóra árið 2014 hefur fyrirtækið vaxið mikið. Ekki sér fyrir endan á vextinum því nú í nóvember var undirritaður kaupsamningur á norska fyrirtækinu Mørenot. Ef yfirvöld samkeppnismála leggja blessun sína yfir þau kaup þá mun velta fyrirtækisins aukast um 75%. Það er töluvert ekki síst þegar haft er í huga að veltan hefur þegar þrefaldast frá árinu 2014.
Hampiðjan, sem stefnir á skráningu á aðalmarkað Nasdaq á Íslandi á komandi ári, hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2022.
Viðtal við Hjört birtist í tímaritinu Áramótum, sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði