Velta Hampiðjunnar dróst lítillega saman milli ára, samkvæmt nýbirtu ársuppgjöri félagsins. Hagnaður samstæðunnar hækkaði hins vegar um 19% og nam 14 milljónum evra, eða um 2,1 milljarði króna, að stærstum hluta vegna hærri fjáreignatekna og lægri tekjuskatts.
Stjórn Hampiðjunnar leggur til að á árinu 2025 verði greiddur 1,1 krónu arður af hverjum hlut útistandandi hlutafjár til hluthafa að upphæð 700 milljónir króna.
Rekstrartekjur Hampiðjunnar drógust saman um 1% milli áranna 2023 og 2024 og námu 318,8 milljónum evra í fyrra, eða sem nemur 47,6 milljörðum króna.
EBITDA-hagnaður félagsins lækkaði úr 37,5 í 37,4 milljónir evra milli ára en hlutfallið 11,7% af tekjum hélst óbreytt.
„Árið 2024 var að mörgu leyti gott fyrir Hampiðjuna en ekki án áskorana því ytri aðstæður voru krefjandi á sumum mörkuðum og höfðu áhrif á rekstur félagsins,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.
Meðal ástæðna fyrir samdrættinum eru langt verkfall í Færeyjum síðastliðið sumar, sölutregða á fiskeldisbúnaði í Noregi, áhrif stríðsins í Úkraníu á verkefni í fiskeldi vegna eignaraðildar rússneskra félaga, aukin verðsamkeppni í fiskeldisbúnaði, endurtekinn niðurskurði á kvóta í Barentshafi og loðnubrestur á Íslandsmiðum.
Falla frá uppbyggingaráformum í Litháen og horfa til Indlands
Innan samstæðu Hampiðjunnar eru nú 47 fyrirtæki. Hjörtur segir að ef undan séu skilin framleiðslufyrirtækin 5 í Litháen, Póllandi og Kína og móðurfyrirtækið á Íslandi ásamt öðrum eignarhaldsfyrirtækjum þá eru það 28 fyrirtæki sem standa í framlínunni í sölu til útgerðar- og fiskeldisfyrirtækja.
Í aðdraganda hlutafjárútboðs Hampiðjunnar sumarið 2023 kynnti félagið áætlun um að byggja frekar upp starfsemi sína í Litháen og auka afkastagetuna þar, sérstaklega fyrir fiskeldishlutann. Hjörtur segir þrennt hafa orðið til að breyta þeirri fyrirætlan á síðasta ári.
Í fyrsta lagi hafi samkeppni á aðalmörkuðunum fyrir fiskeldi í Noregi, Færeyjum og Skotlandi breyst í ársbyrjun 2024 þegar indverska félagið Garware sleit áratugalöngu samstarfi við norska fyrirtækið Selstad og hóf að selja beint inn á þessa markaði. Verðsamkeppni jókst í kjölfarið og um tíma hafi verið erfitt að ná sölum.
Í öðru lagi hafi efnisval í fiskeldiskvíar verið að breytast og hraði þeirrar breytingar verið að aukast undanfarin tvö ár. Þessi breyting felst í því að í stað mjúkra hnútalausra nylon- og ofurefnaneta eru að koma stíf hnútanet úr polyethylene.
„Kostur þeirra er að þau þola betur þvott með róbótum neðansjávar og erfiðara er fyrir seli að bíta sig í gegnum netin. Vegna stífleikans þá er ekki hægt að sauma netin saman í kvíar með saumavélum heldur verður að sauma allt saman í höndum með netanálum. Það þýðir að vinnutímafjöldi fyrir hverja kví margfaldast og þar með vinnulaunakostnaðurinn.“
Í þriðja lagi hafi laun í Litháen farið hratt hækkandi og þannig hækkuðu þau um 15,1% árið 2023, 10,0% 2024 og nú um áramótin 12,3%. Launabreytingarnar séu þannig til komnar að um hver áramót leggur ríkisstjórnin í Litháen fram frumvarp um hækkun lágmarkslauna sem samþykkt eru af þinginu. Reyndin hafi verið sú að launbreytingin skilar sér að mestu upp eftir launaskalanum.
„Ekkert lát virðist ætla að verða á þessum launahækkunum á næstu árum og stefna stjórnvalda virðist vera að hækka laun meðan atvinnuleysi eykst ekki í kjölfar hækkananna.“
Í stað þess að stefna á frekari uppbyggingu í Litháen þar sem félagið er með þrjár starfsstöðvar þá var ákveðið að byggja upp starfsemi á Indlandi þar sem allar aðstæður til framleiðslu séu afar hagstæðar, byggingaverð lágt og vinnulaunin mun lægri en í Litháen.
Hjörtur segir að Mørenot, sem Hampiðjan keypti fyrir meira rúmlega tveimur árum síðan, hafi verið í samstarfi við indverska fyrirtækið Kohinoor í mörg ár en það fyrirtæki hefur framleitt og selt kaðla og stíf polyethylene net í fiskeldiskvíar Mørenot og byggt upp netaverkstæði til að framleiða fiskeldiskvíar.
Þetta samstarf hafi staðið á tímamótum því samstarfssamningur fyrirtækjanna var að renna út síðastliðið haust. Viðræður hófust á síðasta ári um framhaldið og þær hafi leitt til þess að samningar náðust um kaup Hampiðjunnar á 75,1% hlut í Kohinoor.
Stefnt er að endanlegum frágangi kaupanna um miðjan apríl en Hjörtur segir að á þeim tíma ættu allir fyrirvarar vegna samninganna að vera uppfylltir og frágengnir.
Unnið sé að því að tryggja land fyrir stækkun Kohinoor og fyrirhugað að það verði um 12 hektarar sem hentar fyrir um 80 þúsund fermetra byggingarmagn en fyrsta skref yrði að byggja um 20 þúsund fermetra.
Hjörtur segir að byggingartími iðnaðarhúsnæðis á Indlandi sé ekki langur og það taki um 7-8 mánuði að ljúka byggingu frá fyrstu skóflustungu. Þá sé byggingarverð „afar hagstætt“ eða um 200 evrur á fermetrann. Til samanburðar væri fermetraverð á sambærilegu húsi í Litháen um 800 evrur á fermetrann en hér á Íslandi væri byggingarkostnaðurinn um 2.500 evrur á fermetrann.
„Vaxtar- og hagræðingarmöguleikarnir eru nú meiri en áður og framundan er spennandi tímabil uppbyggingar og hagræðingar og afraksturinn ætti að sýna sig að hluta til undir lok þessa árs og að miklu leyti næsta ár þegar sú starfsemi, sem til stendur að flytja, er komin að fullu til Indlands.“