Tais Clausen, einn stofnenda 3Shape, fyrirtækis sem sérhæfir sig í þrívíddarskönnun fyrir tannlæknaiðnaðinn, hefur keypt dýrustu íbúð Danmerkur.
Þetta kemur fram í frétt Børsen.
Verð íbúðarinnar, sem er staðsett á Papirøen í Kaupmannahöfn, er 70,9 milljónir danskra króna (um 1,4 milljarðar íslenskra króna).
Íbúðin er 378 fermetrar, sem þýðir að fermetraverðið er 187.583 danskar krónur eða um 3,7 milljónir íslenskra króna.
Papirøen er nýtt íbúðarhverfi í Kaupmannahöfn en borgarhlutinn er hannaður af dönsku hönnunarstofunni Cobe.
Á eyjunni er að finna 151 íbúð sem eru staðsettar við höfnina með útsýni yfir meðal annars Amalienborg, Kastellet og Óperuhúsið.

Stofnendur 3Shape meðal ríkustu Dana
Tais Clausen og Nikolaj Deichmann stofnuðu 3Shape árið 2000. Á þeim tíma var Clausen að þróa frumgerð af 3D-skanna við Tækniháskóla Danmerkur, á meðan Deichmann, nemi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, var að leita að verkefni fyrir keppni.
3Shape hefur vaxið gríðarlega síðan þá og var með 996 milljóna danskra króna hagnað árið 2023, sem er 14% aukning frá fyrra ári.
EBITDA-fyrirtækisins var 1,3 milljarðar danskra króna.
Clausen og Deichmann eru nú meðal ríkustu einstaklinga Danmerkur en Clausen á 40% hlut í fyrirtækinu og er metinn á 16,1 milljarð danskra króna, eða um 314 milljarða íslenskra króna á meðan Deichmann á 36% og er metinn á 14,1 milljarð danskra króna.
Samkvæmt Børsen hafa bæði Clausen og Deichmann kosið að halda sig utan sviðsljóssins og eru þeir þekktir fyrir að veita sjaldan viðtöl við fjölmiðla.
