Tais Clausen, einn stofn­enda 3Shape, fyrir­tækis sem sér­hæfir sig í þrívíddar­skönnun fyrir tann­lækna­iðnaðinn, hefur keypt dýrustu íbúð Dan­merkur.
Þetta kemur fram í frétt Børsen.

Verð íbúðarinnar, sem er stað­sett á Papirøen í Kaup­manna­höfn, er 70,9 milljónir danskra króna (um 1,4 milljarðar ís­lenskra króna).

Íbúðin er 378 fer­metrar, sem þýðir að fer­metra­verðið er 187.583 danskar krónur eða um 3,7 milljónir ís­lenskra króna.

Papirøen er nýtt íbúðar­hverfi í Kaup­manna­höfn en borgar­hlutinn er hannaður af dönsku hönnunar­stofunni Cobe.

Á eyjunni er að finna 151 íbúð sem eru stað­settar við höfnina með útsýni yfir meðal annars Amalien­borg, Ka­stellet og Óperu­húsið.

Íbúar á eyjunni hafa einstakt aðgengi að sjónum.

Stofn­endur 3Shape meðal ríkustu Dana

Tais Clausen og Nikola­j Deichmann stofnuðu 3Shape árið 2000. Á þeim tíma var Clausen að þróa frum­gerð af 3D-skanna við Tækni­háskóla Dan­merkur, á meðan Deichmann, nemi við Við­skipta­háskólann í Kaup­manna­höfn, var að leita að verk­efni fyrir keppni.

3Shape hefur vaxið gríðar­lega síðan þá og var með 996 milljóna danskra króna hagnað árið 2023, sem er 14% aukning frá fyrra ári.

EBITDA-fyrir­tækisins var 1,3 milljarðar danskra króna.

Clausen og Deichmann eru nú meðal ríkustu ein­stak­linga Dan­merkur en Clausen á 40% hlut í fyrir­tækinu og er metinn á 16,1 milljarð danskra króna, eða um 314 milljarða íslenskra króna á meðan Deichmann á 36% og er metinn á 14,1 milljarð danskra króna.

Sam­kvæmt Børsen hafa bæði Clausen og Deichmann kosið að halda sig utan sviðsljóssins og eru þeir þekktir fyrir að veita sjaldan viðtöl við fjölmiðla.

Íbúar get geymt báta sína við eyjuna.