Tónlistarmaðurinn og forritarinn Halldór Eldjárn fer fyrir hljóðforritunarfyrirtækinu Inorganic Audio ásamt forritaranum Ragnari Inga Hrafnkelssyni en þeir gáfu á dögunum út hljóðviðbótina (e. plug-in) Liquid sem hafði verið í vinnslu frá upphafi árs 2020.

„Ég var að vinna þetta samhliða annarri hugmynd sem ég var með sem er meira tengd því að nota algóritma til þess að hjálpa tónlistarfólki að semja, sannaðar reglur sem ég vildi auðvelda fólki að nota í sínu skapandi ferli, og þá spratt þetta tól svona fram samhliða því,“ segir Halldór en Rannís veitti upprunalega verkefninu styrk árið 2021.

Að sögn Halldórs er algengt að tónlistarfólk noti margar mismunandi viðbætur innan hljóðvinnsluforrita en hljóðið sem Liquid býr til úr öðru hljóði megi líkja við bergmál að ákveðnu leyti. Viðbótin sé þó öðruvísi en aðrar á markaði þar sem notuð er jafna sem hermir eftir hreyfingum öreinda í vökva til að hafa áhrif á hljóðið.

„Við notum þessa hermun til þess að brjóta upp hljóðið og láta það synda um í einhvers konar sýndarvökva. Þá kemur ákveðinn hljómur, sem er eins og bergmál en hefur tilviljanakennd áhrif á tónhæðina einnig. Þetta er samtenging á mjög listrænni abstrakt hugmynd og svo hnitmiðuðu hljóðvinnslutóli sem þú notar bara sem verkfæri í þinni vinnu sem tónskáld eða hljóðvinnslusérfræðingur,“ segir Halldór.

Fjölmörg tónskáld hérlendis eru farin að nota nýju viðbótina að sögn Halldórs en verkföll í kvikmyndaheiminum í Bandaríkjunum flækja meðal annars fyrir.

„En á meðan gefst tími til að sinna prófunum á hugbúnaðinum og er hann þegar kominn í hendur fjölmargra erlendra og innlendra tónskálda. Það hafa hingað til allir verið mjög jákvæðir fyrir því að nota hugbúnaðinn okkar í sinni tónlistarsköpun og finnst spennandi á fá að vera fyrst til að prófa,“ segir Halldór og nefnir sem dæmi að Ólafur Arnalds, Úlfur Eldjárn, Herdís Stefánsdóttir og Kjartan Holm hafi verið með þeim fyrstu til að spreyta sig

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.