Næsta skref í viðræðum Steinþórs Pálssonar fyrir hönd stjórnvalda við eigendur skuldabréfa ÍL-sjóðs – svokallaðra Íbúðabréfa – er að komast af stigi óformlegra þreifinga yfir í raunverulegar, formlegar samningaviðræður. Steinþór leggur áherslu á að fara ekki með nein skilyrði inn í viðræðurnar heldur hefja þær á almennum nótum.

„Það þarf bara að vera svolítið opið og svo þarf þá að máta það við ráðuneytið hvað gæti gengið. Ríkið setur engin skilyrði um hvernig slíkar viðræður skuli fara fram eða hvaða lausn sé til umræðu. Þetta snýst bara um að setjast yfir málið og sjá hvort það sé ekki hægt að finna lendingu þannig að allir geti gengið sáttir frá borði.“

Spurður um hvort til greina komi að bjóða annarskonar eignir en skuldabréf – sem þá liggur beinast við að væru hlutabréf – í skiptum fyrir Íbúðabréfin ítrekar Steinþór að ekkert liggi enn fyrir í þeim efnum enda viðræður ekki hafnar, auk þess sem honum hafi ekki verið veitt sérstakt tilgreint samningsumboð heldur felist hlutverk hans einungis í milligöngu.

Flókið ferli að ráðstafa ríkiseignum

Að því sögðu hljóti stjórnvöld að nálgast hugmyndir um ólíka eignaflokka með opnum hug, þótt ljóst megi vera að ýmis takmörk séu fyrir því hvað sé raunhæft í þeim efnum.

„Það er nú hugmyndin með svona samtali, að heyra í mótaðilunum varðandi það hvað þeim gæti hugnast og móta svo í framhaldi. Að ráðstafa eignum ríkisins er auðvitað ákveðið ferli sem meðal annars mun væntanlega krefjast aðkomu Alþingis. Aðalatriðið er að setjast niður sem fyrst og sjá hvað er hægt að gera með núverandi eignir og hvaða aðrar eignir gætu hugsanlega dugað til að ná samkomulagi.“

Nánar er rætt við Steinþór í Viðskiptablaðinu sem kom út 12. janúar.