Hlutabréfavísitölur hafa hækkað í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu í morgun eftir að stjórnvöld í Washington veittu tímabundna undanþágu frá fyrirhuguðum tollum á snjallsíma, fartölvur og aðrar tæknivörur sem framleiddar eru í Kína.
Þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi lagt mikla áherslu á að um skamman sveigjanleika sé að ræða, hafa fjárfestar tekið þessari breytingu sem mögulegri vísbendingu um mildari afstöðu í viðskiptastríðinu við Kína og sem merki um að verstu áhrifin á tækniiðnaðinn kunni að verða minni en áður var óttast, samkvæmt Financial Times.
Framvirkir samningar tengdir S&P 500 hafa ýtt vísitölunni upp um 1,8%, á meðan Nasdaq 100 hefur hækkað um rúm 2%.
Í Evrópu hefur Euro Stoxx 600 hækkað um 2,3% og FTSE 100 í London um 2%.
Markaðir í Asíu tóku einnig við sér í nótt er japanska Nikkei 225-vísitalan hækkaði um 1,8% og Topix um 1,6%.
Hvíta húsið tilkynnti um undanþágur á tilteknar raftækni- og neysluvörur á föstudaginn en til stóð að leggja allt að 145% tolla á vörur frá Kína. Undanþágan telst því stór ávinningur fyrir fyrirtæki eins og Apple sem reiða sig á framleiðslu í kínverskum verksmiðjum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf þó lítið fyrir þá túlkun að um tilslökun væri að ræða.
Í færslu á samfélagsmiðlum sagði hann að „ENGINN væri að sleppa við refsingu“ og að vörurnar væru einungis fluttar í annan tollaflokk.
Samtímis lét forsetinn í ljós að stjórnin hygðist sýna sveigjanleika og ræða við lykilfyrirtæki um hvernig innleiða ætti tolla á ákveðna vöruflokka.
Hann gaf jafnframt til kynna að nýir tollar á hálfleiðara (örflögur) væru í undirbúningi og yrðu kynntir innan viku.