Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um meira en 30% í fyrstu viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag og stendur í 1.555 krónur á hlut þegar fréttin er skrifuð. Til samanburðar fór dagslokagengi félagsins á Íslandi hæst í 1.332 krónur á fyrsta viðskiptadeginum á First North-markaðnum þann 23. júní síðastliðinn.

Alvotech tilkynnti í morgun að Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hefði lokið skoðun á umsókn um markaðsleyfi fyrir líftæknilyfjahliðstæðu Humira í háum styrk og staðfest að framlögð gögn sýni að kröfur um útskiptileika séu uppfylltar. Veiting markaðsleyfis í Bandaríkjunum sé nú háð fullnægjandi niðurstöðu komandi endurúttektar á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins í Reykjavík sem áætlað er að fari fram á fyrsta fjórðungi 2023.

Humira er eitt mest selda lyf heims en einkaleyfi Abbvie, söluaðila lyfsins í Bandaríkjunum, rennur út á næsta ári. Abbvie seldi það fyrir ríflega 20 milljarða dollara í Bandaríkjunum á síðasta ári, nærri þrjú þúsund millljarða íslenskra króna. Líftæknihliðstæða Alvotech af Humira er þegar komin á markað í Evrópu og Kanada en langstærsta markaðssvæðið er Bandaríkin. Alvotech stefnir að því að hefja markaðssetningu lyfsins í Bandaríkjunum 1. júlí 2023.

Líkt og fyrr segir hefur gengi Alvotech á Íslandi hækkað um næri þriðjung í ríflega 42 milljóna króna veltu. Gengið hefur nærri tvöfaldast á einum mánuði.

Hlutabréf Alvotech, sem eru tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum, hafa hækkað um 6,5% í viðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs. Gengi Alvotech í New York kauphöll Nasdaq stendur nú í 8,84 dölum á hlut og var síðasta hærra í ágúst síðastliðnum