Hlutabréfaverð líftæknilyfjafélagsins Alvotech hefur lækkað um tæp 15% frá því að félagið birti ársuppgjör eftir lokun markaða á miðvikudaginn.

Gengi félagsins hefur lækkað um tæp 9% í 228 milljón króna viðskiptum. Gengi félagsins stendur í 1322,5 krónum þegar þetta er skrifað sem yrði lægsta dagslokagengi Alvotech frá desember 2023.

Alvotech skilaði rekstrarhagnaði upp á 70 milljónir dala, um 9,3 milljarða króna, á árinu 2024, en árið áður var rekstrartap upp á 355 milljónir dala, um 46,9 milljarða króna.

Tekjur félagsins jukust um 427% á milli ára og námu 492 milljónum dala.

Svo virðist þó sem að fjárfestar séu ekki að taka vel í uppfærða afkomuspá félagsins fyrir árið í ár en í fjárfestakynningu Alvotech var greint frá því að heildartekjur í ár yrðu á bilinu 570 til 670 milljónir dala.

Tekjur vegna sölu á líftæknilyfjahliðstæðum, einkum Humira og Stelara, eru áætlaðar um 340 til 410 milljónir dala á meðan leyfis- og áfangatekjur munu nema á bilinu 230 til 260 milljónum dala.

Samsvarar það um tíu prósenta samdrætti í tekjum miðað við fyrri afkomuspá en félagið hafði áður gert ráð fyrir um 600 til 800 milljónum dala í tekjur á árinu.

Í tekjuspá félagsins fyrir þetta ár er þó ekki gert ráð fyrir sérleyfissamningi vegna sölu á Selarsdi-hliðstæðu félagsins við Stelara sem kom á markað vestanhafs í febrúarmánuði.

Samkvæmt afkomuspá Alvotech fyrir 2025 er gert ráð fyrir að lagaður EBITDA-hagnaður muni tvöfaldast á þessu ári og verða 180 til 260 milljónir dala.

Félagið væntir þess að skila EBITDA-framlegð upp á liðlega 35 prósent, en í fyrra var það hlutfall um 22 prósent. Félagið miðar einnig við jákvætt fjárflæði af rekstrinum á þessu ári.