Hlutabréf í þýska sandalaframleiðandanum Birkenstock lækkuðu um 13% á fyrsta viðskiptadegi í Kauphöllinni í New York í gær.
Útboðsgengið var 46 Bandaríkjadalir en dagslokagengið 40 dalir. Samkvæmt útboðsgenginu er virði fyrirtækisins um 8,6 milljarðar Bandaríkjadala sem samsvarar ríflega 1200 milljörðum íslenskra króna.
Markaðsvirði miðað við dagslokagengið var um 7,7 milljarðar Bandaríkjadala. Birkenstock fylgir þannig eftir félögum eins og Instacart, Arm og Kellanova sem hafa öll lækkað á markaði eftir frumútboð á árinu. Gengið hefur farið niður um 3,4% það sem af er degi.
Fjármálafyrirtæki og greiningaraðilar bjuggust við gengislækkuninni en illa gekk að selja hluti til fjárfesta vestanhafs í útboðinu.
Samkvæmt greiningadeildum bankanna þarf Birkenstock að bæta sölutekjur sínar af bæði sandölum og stígvélum í vefverslun til að fjölga nýjum viðskiptavinum.
Núverandi efnahagsástand, verðbólga og hárra vaxta hafði einnig áhrif en að mati greiningaraðila eru neytendur að einblína á að kaupa ódýrar neysluvörur um þessar mundir og áætla fjárfestar að sölutölur fyrirtækisins munu lækka á næstu mánuðum eftir mikla aukningu síðustu ár.
L Catterton keypti meirihluta hlutafjár í Birkenstock árið 2021 en þegar kaupin fóru í gegn var markaðsvirði fyrirtækisins metið á 4 milljarða Bandaríkjadala. Tveir meðlimir í Birkenstock-fjölskyldunni eru enn minnihlutahluthafar í fyrirtækinu.
Eftir kaupin árið 2021 sagði L Catterton að fyrirtækið ætlaði að sækja fram á Asíumarkaði, sérstaklega í Kína og Indlandi.
Um 3000 starfsmenn vinna hjá Birkenstock og framleiðir fyrirtækið sandala sína í verksmiðjum í Þýskalandi.
Í útboðinu voru gefnir út 10,75 milljónir nýir hlutir í félaginu ásamt því að L Catterton minnkaði hlut sinn með því að selja 21,51 milljón hluti.