Hluta­bréf í þýska sandala­fram­leiðandanum Birken­stock lækkuðu um 13% á fyrsta við­skipta­degi í Kaup­höllinni í New York í gær.

Út­boðs­gengið var 46 Banda­ríkja­dalir en dagsloka­gengið 40 dalir. Sam­kvæmt út­boðs­genginu er virði fyrir­tækisins um 8,6 milljarðar Banda­ríkja­dala sem sam­svarar ríf­lega 1200 milljörðum ís­lenskra króna.

Markaðs­virði miðað við dagsloka­gengið var um 7,7 milljarðar Banda­ríkja­dala. Birken­stock fylgir þannig eftir fé­lögum eins og Insta­cart, Arm og Kella­nova sem hafa öll lækkað á markaði eftir frumút­boð á árinu. Gengið hefur farið niður um 3,4% það sem af er degi.

Fjár­mála­fyrir­tæki og greiningar­aðilar bjuggust við gengis­lækkuninni en illa gekk að selja hluti til fjár­festa vestan­hafs í út­boðinu.

Sam­kvæmt greininga­deildum bankanna þarf Birken­stock að bæta sölu­tekjur sínar af bæði sandölum og stíg­vélum í vef­verslun til að fjölga nýjum við­skipta­vinum.

Nú­verandi efna­hags­á­stand, verð­bólga og hárra vaxta hafði einnig á­hrif en að mati greiningar­aðila eru neyt­endur að ein­blína á að kaupa ó­dýrar neyslu­vörur um þessar mundir og á­ætla fjár­festar að sölu­tölur fyrir­tækisins munu lækka á næstu mánuðum eftir mikla aukningu síðustu ár.

L Catter­ton keypti meiri­hluta hluta­fjár í Birken­stock árið 2021 en þegar kaupin fóru í gegn var markaðs­virði fyrir­tækisins metið á 4 milljarða Banda­ríkja­dala. Tveir með­limir í Birken­stock-fjöl­skyldunni eru enn minni­hluta­hlut­hafar í fyrir­tækinu.

Eftir kaupin árið 2021 sagði L Catter­ton að fyrir­tækið ætlaði að sækja fram á Asíu­markaði, sér­stak­lega í Kína og Ind­landi.

Um 3000 starfs­menn vinna hjá Birken­stock og fram­leiðir fyrir­tækið sandala sína í verk­smiðjum í Þýska­landi.

Í útboðinu voru gefnir út 10,75 milljónir nýir hlutir í félaginu ásamt því að L Catterton minnkaði hlut sinn með því að selja 21,51 milljón hluti.