Breski skóframleiðandinn Dr Martens færði í dag niður afkomuspá sína í annað sinn á þremur mánuðum. Hlutabréfaverð félagsins féll um 30% í viðskiptum dagsins og hefur aldrei verið lægra.

Félagið sagði að verulegir rekstrarerfiðleikar hefðu ollið flöskuhálsi í nýrri dreifingarstöð í Los Angeles sem opnaði í júlí síðastliðnum. Röskun á starfseminni stöðvarinnar mun draga afkomu félagsins niður um allt að 25 milljónir punda, eða um 4,4 milljarða króna, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Eftirspurn í Bandaríkjunum, stærsta markaði Dr Martens, var einnig undir væntingum sem skóframleiðandinn rekur m.a. til að veðurfar var hlýrra en spáð var.

Dr Martens var skráð á hlutabréfamarkað í London í ársbyrjun 2021. Hlutabréfaverð félagsins hefur samtals fallið um 68% frá skráningu. Markaðsvirði félagsins nemur nú 1,45 milljörðum punda, eða ríflega 250 milljörðum króna.