Kínverska félagið PDD Holding, eigandi smásölusmáforritanna Temu og Pinduoduo, hefur varað við því að hagnaður félagsins til lengri tíma muni „óhjákvæmilega“ lækka og að tekjuvöxtur félagsins muni dragast saman vegna aukinnar samkeppni og ytri áskorana.

Hlutabréfaverð PDD Holding, sem er skráð á markað í Bandaríkjunum, féll í kjölfarið um 28,5% og lækkaði markaðsvirði félagsins því um tæplega 55 milljarða dala.

Kínverska félagið PDD Holding, eigandi smásölusmáforritanna Temu og Pinduoduo, hefur varað við því að hagnaður félagsins til lengri tíma muni „óhjákvæmilega“ lækka og að tekjuvöxtur félagsins muni dragast saman vegna aukinnar samkeppni og ytri áskorana.

Hlutabréfaverð PDD Holding, sem er skráð á markað í Bandaríkjunum, féll í kjölfarið um 28,5% og lækkaði markaðsvirði félagsins því um tæplega 55 milljarða dala.

Lækkunin er rakin til þess að tekjuvöxtur á öðrum ársfjórðungi var undir væntingum auk þess sem stjórnendur PDD vöruðu við áskorunum í rekstrarumhverfi félagsins á fjarfundi með greiningaraðilum í kjölfar birtingar árshlutauppgjörs í gær.

Tekjur félagsins námu 13,4 milljörðum dala á öðrum fjórðungi sem samsvarar 86% vexti frá sama tímabili í fyrra. Veltan var engu að síður undir væntingum. Hagnaðurinn jókst um 144% milli ára og nam 4,4 milljörðum dala.

Annar forstjóri (e. co-chief excecutive) félagsins, Zhao Jiazhen, sagði að hagnaður PDD gæti sveiflast í náinni framtíð en til lengri tíma væri óhjákvæmilegt að hagnaður félagsins myndi dragast saman.

Hinn forstjórinn, Chen Lei, sagði að nú væri ekki tíminn til að greiða út arð eða setja á fót endurkaupaáætlun. Jafnframt teldu stjórnendur félagsins ekki þörf á útgreiðslum til hluthafa á næstkomandi árum. Í umfjöllun FT segir að mörg önnur kínversk tæknifyrirtæki með sterka lausafjárstöðu líkt og PDD séu byrjuð að verðlauna hluthafa með útgreiðslum.

Auk harðnandi samkeppni, bæði í Kína og annars staðar í heiminum, þá glímir PDD við þá áskorun að fylgja línu kínverskra stjórnvalda um að leggja áherslu á gæði í framleiðslu.

Stjórnendur félagsins sögðust á ofangreindum fundi leggja áherslu á hágæða þróun. Þeir bættu við að félagið stefnir á að fjárfesta fyrir 1,4 milljarða dala á fyrsta ári nýrrar herferðar um að lækka þóknanir fyrir framleiðendur hágæðavara auk þess að leggja áherslu á að byggja heilbrigt og sjálfbært vistkerfi.