Úrvalsvísitalan hækkaði um eitt prósent í 1,7 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag og hefur nú ekki verið hærri frá 4. maí síðastliðnum. Mesta veltan var með hlutabréf Marels eða um 450 milljónir króna en gengi félagsins hækkaði um 2% og stendur nú í 686 krónum á hlut.

Icelandair hækkaði einnig um meira en 2% í 93 milljóna veltu en hlutabréfaverð flugfélagsins stendur nú í 1,59 krónum á hlut.

Mest hækkað þó fasteignafélagið Eik eða um 4,2% í 71 milljónar króna viðskiptum. Gengi Eikar stendur nú í 14,9 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra í meira en tvo mánuði.

Síldarvinnslan, sem var hástökkvari gærdagsins, hækkaði einnig um 1,5% í dag. Velta með bréf félagsins nam þó aðeins 39 milljónum króna. Gengi Síldarvinnslunnar stóð í 105 krónum við lokun Kauphallarinnar en gengið hefur nú hækkað um 9% frá því að félagið tilkynnti um 31 milljarðs króna kaup á Vísi á Grindavík um helgina.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í dag þá lækkaði gengi Alvotech um 9% á First North-markaðnum. Þá hefur hlutabréfaverð Alvotech á bandaríska Nasdaq-markaðnum lækkað um 2,6% í dag og nemur nú 6,82 dölum.