Hlutabréf evrópskra banka hafa lækkað verulega í viðskiptum dagsins. Credit Suisse leiðir lækkanir en gengi svissneska bankans hefur fallið um 17% og hefur aldrei verið lægra. Áhyggjur um Credit Suisse virðast hafa kynt undir ótta um stöðu fjármálakerfisins.
Hlutabréf BNP Paribas, Société Générale, Deutsche Bank og ING hafa einnig fallið um meira en 8% í dag. Stoxx Europe 600 vísitalan hefur fallið um meira en 2,5%. Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa lækkað um 1,0%-1,5% í dag.
Íslenska Úrvalsvísitalan hefur einnig fallið um meira en 2% í dag. Gengi Kviku hefur lækkað um 3,7%. Hlutabréf Íslandsbanka og Arion hafa fallið um 2,9%.
Gengi Credit Suisse aldrei verið lægra
Viðskipti með hlutabréf Credit Suisse voru tímabundið stöðvuð í morgun. Lækkanir á gengi bankans eru m.a. raktar til þess að stjórnarformaður stærsta hluthafans Saudi National Bank (SNB), sem keypti 10% hlut í Credit Suisse í fyrra, útilokaði að veita svissneska bankanum frekari fjárhagsaðstoð.
Ammar Alkhudairy, stjórnarformaður SNB, sagði við Bloomberg að ef bankinn myndi eignast yfir 10% hlut í Credit Suisse myndi það hafa í för með sér auknar kröfur af hálfu eftirlitsaðila.
Í ársuppgjöri Credit Suisse, sem birt var í gær, kemur fram að endurskoðandinn, PwC, hafi borið kennsl á veigamikla veikleika er varða innra eftirlit með reikningsskilum bankans. Credit Suisse hafði frestað birtingu uppgjörsins eftir að Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) óskaði eftir nánari upplýsingum um ábendingar PwC.
Skuldatryggingarálag hjá Credit Suisse fór upp í 565 punkta í dag en til samanburðar stóð það í 350 punktum í byrjun mánaðarins, að því er kemur fram í frétt Financial Times.
Alex Lehmann, stjórnarformaður Credit Suisse, sagði í viðtali í dag að það væri engin umræða innan bankans að kalla eftir aðstoð frá svissneskum stjórnvöldum. Eiginfjár- og lausafjárstaða væri sterk. Þá ynni bankinn áfram að umfangsmikilli endurskipulagningu í kjölfar mikils tapreksturs og hneykslismála á undanförnum árum.