Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 5,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Rekja má stóran hluta veltunnar til 1,2 milljarða króna skiptisamnings þar skipt var á hlutabréfum í Alvotech fyrir hlutebréf í Reitum, Arion banka, Nova, Eik, Ocu­lis og Eim­skips, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í dag.

Eik fasteignafélag lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins í dag eða um 3,4% í 91 milljónar króna veltu. Gengi Eikar stendur í 9,85 krónum á hlut og hefur lækkað um 9,7% í ár. Tilkynnt var í morgun um að Reginn hefði ákveðið að afturkalla yfirtökutilboð sitt í Eik.

Auk Eik, þá lækkaði hlutabréfaverð Kviku banka og Skaga um meira en 2% í dag.

Hlutabréf flugfélaganna taka dýfu

Flugfélagið Play, sem er skráð á First North-markaðinn, lækkaði mest af öllum félögum eða um 4,4% í 23 milljóna veltu. Gengi Play stóð í 4,3 krónum við lokun Kauphallarinnar.

Þá lækkaði gengi Icelandair um tæp 2% í 244 milljóna veltu og stóð í 1,01 krónu í lok dags. Gengi félagsins fór lægst í 1,00 krónur í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð Icelandair hefur nú lækkað um 24% í ár.

Greint var í dag frá því að samn­inga­nefnd­ir Fé­lags flug­mála­starfs­manna rík­is­ins (FFR) og Sam­eyk­is stétt­ar­fé­lags í al­mannaþjón­ustu hefðu ákveðið að boða til yf­ir­vinnu- og þjálf­un­ar­banns ásamt tíma­bundn­um og tíma­sett­um aðgerðum við ör­ygg­is­leit og farþega­flutn­inga fjóra morgna í maí.