Óvissa hefur verið með hlutabréf bandarísku bílaframleiðendanna Ford og General Motors í dag en samningaviðræður milli þriggja stærstu bílafyrirtækjanna og verkalýðsfélagsins United Auto Workers Union hófust um helgina.
Verkfall UAW hófst á föstudaginn síðasta og hafa starfsmenn General Motors, Ford og jeppafyrirtækisins Stellantis yfirgefið verksmiðjur sínar.
Verkalýðsfélagið hefur staðfest að viðræður hófust á ný um helgina og að sögn UAW hafa þær verið „hæfilega árangursríkar“, án þess að hafa farið nánar út í smáatriði.
Hlutabréf GM hækkuðu um 0,9% á föstudaginn en hlutabréf Ford lækkuðu hins vegar um 0,1%. Þá lækkaði gengi Stellantis um 1,3% rétt fyrir opnun í morgun eftir að hafa hækkað um 2,2% fyrir helgi.
Bílaframleiðendurnir hafa einnig brugðist við verkföllunum með uppsögnum. Ford tilkynnti á föstudaginn að 600 starfsmönnum, sem eru ekki í verkfalli, verði sagt upp tímabundið við verksmiðju fyrirtækisins í Michigan-ríki. General Motors sagði einnig að 2.000 starfsmenn í Fairfax verksmiðju fyrirtækisins í Kanasas-ríki gætu verið án vinnu í þessari viku, eða þar til framleiðsla hefst á ný.
„Starfsmennirnir eiga skilið sanngjörn laun“
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur blandað sér í málið og segist hann standa með starfsmönnum fyrirtækjanna. Hann segir að enginn vilji sjá verkfall en hann skilji gremju verkamannanna.
„Starfsmennirnir eiga skilið sanngjörn laun. Fyrirtækin hafa lagt fram nokkur tilboð en ég held að þau ættu að ganga skrefinu lengra til að tryggja að methagnaður fyrirtækja samsvari metsamningum fyrir starfsfólk“ ,segir Biden.