Eldrautt var um að litast í Kauphöllinni í dag. Úrvalsvísitalan féll um 4,45% og heildarvelta í hlutabréfaviðskiptum nam 4 milljörðum króna.
Leiða má að því líkur að ör útbreiðsla kórónuveirunnar Covid-19 hér á landi síðustu daga hafi þar eitthvað um að segja, en staðfest smit eru nú orðin 43 hér á landi, og sé miðað við höfðatölu má aðeins finna fleiri í örríkinu San Marínó.
Mikil óvissa ríkir um endanlegt umfang faraldurins hér á landi, og því erfitt að leggja mat á efnahagsáhrif hans á þessu stigi, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gætu þau orðið umtalsverð.
Mest lækkuðu bréf Sýnar í viðskiptum dagsins, um 6,57% í 22 milljón króna viðskiptum. Næst kemur Kvika með 6,15% lækkun í 199 milljóna viðskiptum, og loks lækkaði Marel um 5,75% í 289 milljónum.
Bréf Origo hækkuðu lítillega í dag, um 0,86%, ein félaga, í litlum 9 milljón króna viðskiptum. Heimavellir héldu þokkalega velli með minnstu lækkun allra félaga, 1,46% í 16 milljóna viðskiptum, Brim lækkaði um 1,55% í 38 milljóna viðskiptum, og Hagar um 1,89% í 237 milljóna veltu. Af öðrum félögum féllu þrjú um 2-3%, en önnur um yfir 3%.
Veltumest voru bréf Arion banka með 3,69% lækkun í 487 milljón króna viðskiptum, en þar á eftir Kvika og Marel með fyrrgreind 199 og 289 milljón króna viðskipti.