Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnaði rauður í dag en nýjustu verðbólgutölur fóru fram úr væntingum greiningaraðila og fjárfesta.

S&P 500 vísitalan hefur fallið um 2,5% frá opnun markaða, Dow Jones Industrial Average vísitalan hefur lækkað um 2,3%. Þá hefur Nasdaq Composite vísitalan lækkað um meira en 3%.

Þá hækkaði ávöxtunarkrafa á tveggja ára bandarískum ríkisskuldabréfum um 0,16%, upp í 3,73%. Krafan á þessum flokki var í kringum 3,52% fyrir birtingu verðbólgutalnanna.

Sjá einnig: Verðbólga í Bandaríkjunum niður í 8,3%

Vinnumálastofnun Bandaríkjanna birti verðbólgutölur fyrir ágústmánuð um hádegisleytið í dag. Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,3% en greiningaraðilar höfðu spáð því að hún yrði 8,1%.

Næsta vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna er boðuð í næstu viku.