Hlutabréfavisitölur í Asíu hækkuðu lítillega í dag eftir embættistöku Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í gær. Hang Seng í Hong Kong hækkaði um 0,9%, Kospi í Suður-Kóreu stóð í stað, Nikkei 225 hækkaði um 0,3% og ASX í Ástralíu hækkaði um 0,6%.

Í setningarræðu sinni sagði Donald Trump að hann myndi innleiða gullöld fyrir Bandaríkin en minntist þó ekki á innflutningstolla sem hann hefur lofað að setja á vörur frá Mexíkó, Kanada og Kína.

Trump hefur einnig lofað viðskiptaumbótum, lægri sköttum og niðurskurði á reglugerðum. Hagfræðingar hafa hins vegar varað við því að aðgerðirnar gætu aukið verðbólgu sem gætu leitt til fleiri vaxtahækkana.

„Við erum að hugsa um 25% toll á Mexíkó og Kanada, vegna þess að þeir leyfa miklum fjölda fólks að koma inn og Kanada er líka slæmt í þessum málum. Mikill fjöldi fólks er að koma inn og það kemur með fentanýl með sér,“ sagði Trump í Hvíta húsinu.

Bandaríkjadalur hefur þá aftur náð nokkuð stöðugri stöðu gagnvart nokkrum öðrum helstu gjaldmiðlum, þar á meðal breska pundinu og evrunni.