Helgi S. Gunnarsson, fráfarandi forstjóri fasteignafélagsins Regins, telur fasteignafélögin í Kauphöllinni vera verðlögð á undirverði. Þetta segir hann í viðtali í Viðskiptamogganum.
„Gengi bréfa er lægra en bókfært verð hjá okkur í Regin og hjá Eik en Reitir eru nýbúnir að jafna gengi og bókfært verð. Það hlýtur að vera óeðlilegt hjá félagi eins og Regin, sem er með stöðugar tekjur og hefur 35% af tekjum sínum frá opinberum aðilum, og allar þær tekjur verðbættar og vísitölutryggðar, og með hagstæðustu lánakjör sem í boði eru. Þetta er öruggasta fjárfestingin sem völ er á,“ segir Helgi m.a. í viðtalinu.
Hann segir jafnframt að ef fólk hafi áhuga á að kaupa ódýra fasteign skuli það kaupa hlutabréf í fasteignafélögum. „Fermetrinn af atvinnueignum er metinn á 350 til 450 þúsund krónur og þá erum við að tala um eignir eins og í Borgartúninu. Það kostar um milljón á fermetra að byggja slíkar eignir á þessu svæði. Þetta sýnir hvað gengið er lágt á fasteignafélögum. Það er alveg galið að fermetri í hágæða skrifstofuhúsnæði í Borgartúninu sé metinn á 400 þúsund.“