Það færðist verulegt líf í hlutabréfamarkaðinn vestanhafs eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans og blaðamannafund Jerome Powell seðlabankastjóra í gær.
Í tvö ár hefur aðalmarkmið bankans verið að ná niður verðbólgunni en hún mældist 3,1% í nóvembermánuði í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að enn sé undirliggjandi verðbólguþrýstingur sagði Powell í gær að markmið bankans væru nú tvískipt: Verðbólgan og atvinnuleysi.
Bandaríkin eru með mjúka lendingu í augnsýn en áhyggjur seðlabankans eru nú líka byrjaðar að snúast um að hægja ekki um of á hagkerfinu.
„Við erum komin aftur á þann stað þar báðir þessir hlutir eru mikilvægir,“ sagði Powell í gær eftir að bankinn hélt vöxtum óbreyttum í 5,25%.
Samkvæmt fundi gærdagsins sér seðlabankinn fyrir sér að lækka vexti um 0,75% í hið minnsta á næsta ári í þremur lækkunarfösum.
Þetta gladdi fjárfesta sem hafa þó verið að veðja á vaxtalækkanir á nýju ári. S&P 500 vísitalan hefur nú hækkað um 12% síðan í lok október og 23% á árinu.
Dow Jones vísitalan hækkaði um 512 punkta í gær og fór upp í 37.090 stig og hefur hún aldrei verið hærri. Nasdaq vísitalan hefur nú hækkað um 41% á árinu eftir
Von er á vaxtaákvörðun frá Englandsbanka og Evrópska seðlabankanum í dag og búast flestir við að vöxtum verði haldið óbreyttum.
Flestir munu þó fylgjast grannt með hvort Andrew Bailey, seðlabankastjóri Englandsbanka og Christine Lagarde forseti Evrópska seðlabankans, munu slá í sambærilegan tón og Powell.