Hlutabréfaverð Haga hefur hækkað um tæp 4% í tæplega 300 milljón króna viðskiptum í morgun, eftir að félagið birti stjórnendauppgjör eftir lokun markaða í gær.
Hlutabréf í Högum hafa nú hækkað um rúm 12% frá því að Trump tilkynnti um frestun á gagnkvæmum tollum á miðvikudaginn í síðustu viku.
Gengi Haga hefur á tímabilinu farið úr 98 krónum á hlut í 110 krónur en það yrði hæsta dagslokagengi félagsins frá skráningu.
Samkvæmt stjórnendauppgjöri Haga nam vörusala samstæðunnar 180,3 milljörðum króna á árinu og jókst um 4,1% frá fyrra ári.
Framlegðin hækkaði í 22,8% og nam 41,1 milljarði króna. EBITDA-hagnaður ársins nam 14,7 milljörðum króna, sem er 8,2% af veltu, og hagnaður eftir skatta nam 7,0 milljörðum króna, sem jafngildir 3,9% af veltu.
Á síðasta ársfjórðungi jókst hagnaður umtalsvert og nam 3,1 milljarði króna samanborið við 1,2 milljarða á sama tíma í fyrra.
Samkvæmt uppgjörinu má mestan hluta þeirrar bættu afkomu rekja til kaupa Haga á SMS, sem hefur verið hluti af samstæðunni frá upphafi ársfjórðungs, sem og bættrar afkomu Olís