Hluta­bréfa­verð Öl­gerðarinnar, sem hefur leitt hækkanir á aðal­markaði á árinu, lækkaði um rúm 4% í við­skiptum dagsins. Yfir 207 milljón króna velta var með bréf fé­lagsins sem hafa hækkað um tæp 20% á árinu.

Við­skipta­blaðið greindi frá því fyrir helgi að OA eignar­halds­fé­lag, sem er í jafnri eigu Andra Þórs Guð­munds­sonar for­stjóra Öl­gerðarinnar og Októ Einars­sonar, frá­farandi stjórnar­for­manns, hefði selt helming allra hluta sinna til Bók­sals ehf.

Eig­endur Bók­sals eru hjónin Bogi Þór Sigur­odds­son og Linda Björk Ólafs­dóttir en eftir kaupin eiga fé­lög í þeirra eigu um 20% hlut í Öl­gerðinni.

Hluta­bréfa­verð Sýnar lækkaði síðan um rúm 2% í um 170 milljón króna veltu en fé­lagið til­kynnti eftir lokun markaða á föstu­daginn að stjórn Sýnar hafi á­kveðið að hætta við að selja vef­miðla- og út­varps­einingu fé­lagsins.

Sýn á­kvað í desember að taka fram­tíðar­eignar­hald og stefnu nýju rekstrar­einingarinnar Vef­miðla og út­varps, sem inni­heldur m. a. Vísi og út­varps­miðla Sýnar, til frekari skoðunar.

Hluta­bréf í Al­vot­ech lækkuðu einnig um rúm 2% í um 430 milljón króna veltu en dagsloka­gengi líf­tækni­lyfja­fyrir­tækisins var 1.865 krónur.

Ekkert fé­lag á aðal­markaði hækkaði um meiri en 1% í við­skiptum dagsins og lækkaði úr­vals­vísti­alan OMXI 15 um 0,4%. Heildar­velta á markaði var 2,3 milljarðar.