Hlutabréf í samfélagsmiðlafyrirtæki Trump Media and Technology Group, móðurfélagi samfélagsmiðilsins Truth Social, hækkuðu um tæplega 35% við opnun markaða vestanhafs í dag.
Að sögn sérfræðinga líta kaupmenn svo á að skotárásin yfir helgina hafi aukið líkur á því að Trump sigri forsetakosningarnar í nóvember.
Donald Trump stofnaði Trump Media and Technology Group árið 2021, nokkrum mánuðum eftir að hafa tapað forsetakosningunum árið 2020. Lokað var svo fyrir reikninga hans á Twitter og Facebook eftir að stuðningsmenn hans gerðu aðför að bandaríska þinghúsinu 6. janúar 2021.
„Þetta snýst meira um kosningarnar en viðskipti. Þetta er fyrirtæki sem á erfitt með að vaxa en ef möguleikar hans á endurkjöri aukast þá getur fyrirtækið orðið verðmætara. Ég er fullviss um að ef Biden myndi hætta myndu hlutabréf Truth Social lækka,“ segir Cary Leahey, greiningarðili á Wall Street, í samtali við BBC.
Þá var einnig greint frá því í gær að verð á rafmyntinni bitcoin hefði hækkað um meira en 2% í kjölfar skotárásarinnar á Trump. Verðið fór yfir 60 þúsund dali eftir árásina en til samanburðar fór verðið lægst í tæplega 54 þúsund dali fyrr í þessum mánuði.