Tyrknesk hlutabréf hafa hækkað um nærri 10% í dag. Hlutabréfamarkaðurinn í Tyrklandi opnaði aftur í morgun eftir að viðskipti voru stöðvuð fyrir viku síðan í kjölfar jarðskjálftanna þar í landi.
Tyrkneska Bist 100 vísitalan hefur hækkað um 9,8% í viðskiptum dagsins en vísitalan hefur ekki hækkað meira á einum degi frá árinu 2008.
Í umfjöllun Financial Times er hækkunin m.a. rakin til ráðstafana Recep Tayyip Erdoğan um að styðja við hlutabréfamarkaðinn, m.a. með því að skipa lífeyrissjóðum í landinu að auka vægi innlendra hlutabréfa í eignasöfnum sínum. Áætlað er að þetta geti leitt til tæplega 60 milljarða króna innflæðis á markaðinn.
Þrátt fyrir hækkun dagsins hefur Bist 100 vísitalan fallið um 12,5% frá áramótum.