Hlutabréfaverð Iceland Seafood hefur hækkað um 5% í Kauphöllinni í dag í um 22 milljón króna viðskiptum. Gengið á þá enn langt í land með að ná með að ná fyrri hæðum en það hefur lækkað um 7,5% síðastliðinn mánuð.
Þegar þetta er skrifað stendur gengið í 5,5 krónum en það stóð hæst í 17,8 krónum í maí 2021.
Í gærkvöldi var tilkynnt að Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International (IS), muni láta af störfum eftir að hafa gegnt stöðunni í fimm ár. Ægir Páll Friðbertsson hefur verið ráðinn nýr forstjóri Iceland Seafood.
Samhliða þessu hefur Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna, selt allan 10,8% eignarhlut sinn í félaginu til útgerðarfélagsins Brims á 1.644 milljónir króna. Gengið í viðskiptunum var 5,3 krónur á hlut.
Ægir Páll hefur starfað sem framkvæmdastjóri Brims undanfarin fimm ár og starfaði þar áður sem framkvæmdastjóri hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur í þrjú ár. Þar áður var hann framkvæmdastjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja í níu ár.
Ægir Páll tekur við starfi forstjóra Iceland Seafood þann 1. nóvember næstkomandi.