Öll félög aðalmarkaðar Kauphallarinnar, að undanskildum Símanum og Regin, hækkuðu í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,2% í dag og hefur ekki verið hærri frá því um miðjan maí síðastliðinn. Veltan á aðalmarkaðnum nam 3 milljörðum króna í dag.
Icelandair leiddi hækkanir en hlutabréfaverð flugfélagsins hækkaði um 10% í 264 milljóna veltu. Gengið félagsins stendur nú í 1,6 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra frá því í lok maí. Icelandair tilkynnti eftir lokun markaða í dag að sætanýting í millilandaflugi hafi verið 83% í júní og að heildarframboð í síðasta mánuði hafi verið 77% af framboði sama mánaðar árið 2019.
Sjá einnig: Sætanýting Icelandair 83% í júní
Hlutabréf Arion, Kviku og Íslandsbanka hækkuðu um meira en 2% í dag. Þá hækkaði gengi Skeljar og Marels um meira en 3%.
Mesta veltan var með hlutabréf Símans eða um hálfur milljarður króna. Hlutabréfagengi fjarskiptafélagsins lækkaði töluvert í fyrstu viðskiptum en endaði daginn í sama gengi og við lokun Kauphallarinnar í gær. Síminn sendi frá sér tilkynningu eftir lokun markaða í gær þar sem fram kom að Samkeppniseftirlitið muni ekki samþykkja sölu á Mílu, dótturfélagi Símans, til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian án skilyrða og/eða með frekari útskýringum af hálfu samrunaaðila.