Úrvalsvísitalan hækkaði um hálft prósent í 4,6 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, en þarf af var um 2,6 milljarða velta með hlutabréf Íslandsbanka, Arion og Kviku. Gengi Íslandsbanka hækkaði mest af bönkunum þremur, eða um 1,4% og stendur nú í 128,4 krónum á hlut, nærri 10% yfir genginu í útboði Bankasýslunnar í síðustu viku.
Sjá einnig: 209 fjárfestar tóku þátt í útboðinu
Hlutabréfa Play hækkuðu mest á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag eða um 2,9% í nærri 300 milljóna veltu. Gengi Play lækkaði nokkuð í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og fór lægst í 20,1 krónu á hlut þann 8. mars en hefur síðan hækkað um 23% og stendur nú í 24,8 krónum. Hlutabréfaverð Icelandair hefur einnig verið að rétta úr kútnum og er komið í 1,93 krónur á hlut eftir 1,4% hækkun í dag.
Hlutabréf fasteignafélaganna þriggja á aðalmarkaðnum hækkuðu öll nokkuð í dag. Gengi Eikar hefur nú hækkað um 21% frá áramótum, Regins um 16% og Reita um 13%.