Hlutabréf flugfélaganna Icelandair og Play leiða hækkanir á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Gengi Icelandair hefur hækkað um 5,3% í 200 milljóna viðskiptum og stendur nú í 1,92 krónum á hlut. Hlutabréf Icelandair hafa nú hækkað um þriðjung frá byrjun þessa mánaðar.
Sjá einnig: Mun stærsti hluthafinn kaupa meira í Icelandair?
Þá hefur hlutabréfaverð Play, sem er skráð á First North-markaðinn, hækkað um 3,7% í 60 milljóna veltu í dag og stendur nú í 18,05 krónum á hlut. Gengi Play hefur ekki verið yfir 18 krónum við lokun Kauphallarinnar frá því í lok maí.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um eitt prósent í 1,3 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan hefur verið með hlutabréf Marels sem birti uppgjör eftir lokun markaða í gær. Gengi félagsins stendur í 606 krónum líkt og við lokun markaða í gær. Hagnaður Marels á öðrum fjórðungi nam 9,6 milljónum evra, sem er um 60% minna en á sama tíma í fyrra.