Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 2,5% við opnun markaða í morgun. Gengið hefur haldið áfram að hækka og stendur gengi bankans í 116,5 krónum um þessar mundir.
Frávik milli markaðsgengi og útboðsgengi í tilboðsbók A, 106,56 krónur, er því komið í rúm 9%.
Dagslokagengi Íslandsbanka í gær var 112,5 krónur á hlut en gengi bankans fór hæst upp í 117 krónur innan dags áður en það lækkaði aftur um tvöleytið.
Dagslokagengi Íslandsbanka í gær var 112,5 krónur á hlut en gengi bankans fór hæst upp í 117 krónur innan dags áður en það lækkaði aftur um tvöleytið.
Tæplega tveggja milljarða króna velta var með bankabréf í kauphöllinni í gær. Kvika banki leiddi hækkanir er gengi bankans fór upp um 7% í tæplega 800 milljón króna viðskiptum.
Fjármálaráðuneytið tilkynnti í morgun að margföld umframáskrift hafi fengist fyrir grunnmagni útboðsins á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Grunnmagn útboðsins nær til 20% af útistandandi hlut eða sem nemur um 40 milljörðum króna miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A. Ráðuneytið tilkynnti á þriðjudaginn að sameiginlegir umsjónaraðilar hefðu móttekið pantanir umfram grunnmagn á fyrsta degi útboðsins.
Gert er ráð fyrir að tilboðstímabili vegna útboðsins ljúki í dag klukkan 17:00 og geta fjárfestar breytt tilboðum sínum fyrir þann tíma. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úthlutunar í útboðinu verði tilkynntar fjárfestum þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða.