Hlutabréfaverð JBT Marel hækkaði um rúm 6% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi félagsins 15.800 krónur á hlut. Gengi JBT Marel hefur nú hækkað um rúm 25% síðastliðinn mánuð og nálgast nú fyrri styrk áður en tollaaðgerðir Trumps skóku markaði.
Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði einnig er gengi félagsins fór upp um tæp 6% í tæplega 700 milljón króna viðskiptum.
Dagslokagengi Alvotech var 1.380 krónur en gengið hefur hækkað um rúm 24% síðastliðinn mánuð.
Róbert Wessmann sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í morgun að fyrirhuguð forsetatilskipun Bandaríkjaforseta um að lækka verð á lyfjum hefði ólíklega teljandi áhrif á fyrirtækið. Trump hyggst reyna ná lyfjaverði niður.
Þrátt fyrir að Trump hafi boðað þessar breytingar í gær verða frumlyf alltaf mun dýrari kostur en sambærilegar hliðstæður sem Alvotech framleiðir.
Hlutabréf í Eimskip hækkuðu um 4% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi 364 krónur á hlut. Gámaflutningafyrirtæki á heimsvísu hækkuðu flest í viðskiptum dagsins eftir að Kína og Bandaríkin ákváðu að fresta tollum um 90 daga.
Gengi danska gámaflutningarisans A.P. Møller - Mærsk hækkaði til að mynda um 11% en erlendir viðskiptamiðlar tengdu hækkunina við frestun tolla.
Gengi Play hækkaði síðan um 2,6% í örviðskiptum. Hlutabréfaverð flugfélagsins hefur nú hækkað um tæp 7% síðastliðinn mánuð og var dagslokagengið 0,78 krónur.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,9% og lokaði í 2.617,02 stigum. Úrvalsvísitalan hefur nú hækkað um 8,15% síðastliðinn mánuð og er árslækkun úrvalsvísutölunnar komin niður í 9,65%.
Heildarvelta á markaði var 2,3 milljarðar.