Hlutabréfaverð enska knattspyrnufélagsins Manchester United hefur fallið um 6,7% í viðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs eftir að hafa tapað úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Tottenham Hotspur 0-1 í gær.
Í umfjöllun Bloomberg segir að útlit sé fyrir að þetta gæti orðið ein mesta lækkun á einum degi á hlutabréfaverði United í meira en átta mánuði.
Með tapinu í gær missti United af sæti í Meistaradeild Evrópu og hlutdeild í 2,5 milljarða evra heildarverðlaunafé keppninnar.
Raunar mun Manchester United, sem situr í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, ekki keppa í neinni evrópukeppni á næsta ári með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á tekjur af miðasölu, auglýsingatekjur og getu félagsins til að sækja til sín nýja leikmenn.
Financial Times áætlar að tekjumissir United vegna tapsins í gær sé í kringum 100 milljónir punda eða um 17 milljarðar króna.