Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,4% í 3,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Um fjórðungur veltunnar var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 1,5%. Gengi Marels stendur nú í 552 krónum á hlut.

Play hækkaði um 2,4%, mest af félögum Kauphallarinnar í dag en um er að ræða fjórða viðskiptadaginn í röð sem hlutabréf flugfélagsins hækka. Gengi Play stendur nú í 12,6 krónum eftir 22% hækkun í vikunni.

Eimskip lækkaði um 1,8%, mest af félögum aðalmarkaðarins. Gengi flutningafélagsins stendur nú í 560 krónum. Auk Eimskips þá lækkuðu hlutabréf Sýn, Regins, Brims og Ölgerðarinnar um 1% eða meira.