Hlutabréf evrópskra bílaframleiðenda hafa lækkað talsvert eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gærkvöldi um að 25% tollar á innfluttar bifreiðar og varahlutir taki gildi 3. apríl næstkomandi.
Hlutabréfaverð Mercedes-Benz og Porsche hafa lækkað um meira en 3% í dag en talið er að þýsku lúxusbílaframleiðendurnir muni finna hvað mest neikvæðum áhrifum af tollunum, samkvæmt Bloomberg Intelligence. Talið er að rekstrarhagnaður félaganna gæti dregist saman um allt að fjórðung, verði af tollunum. Bent er á að Porsche sé ekki með verksmiðju í Bandaríkjunum.
Gengi hlutabréfa Volkswagen hefur einnig fallið um tæplega 2% í dag og BMW um ríflega 2,5%.
„Þetta er stór áskorun fyrir Volkswagen, BMW og Mercedes,“ segir René Tønder, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækis í bílaiðnaðinum við Børsen.
„Stór hluti af bílunum sem þeir selja í Bandaríkjunum eru fluttir inn. Í tilviki BMW er hlutfallið um 60% og hjá Mercedes er það um helmingur. Ég tel reyndar að viðbrögð markaðarins eru frekar mild, ef ég á að segja satt. Ég hefði átt von á harðari viðbrögðum.“
Fregnir af tollum í Bandaríkjunum koma á krefjandi tíma fyrir evrópska bílaiðnaðinn sem er þegar að glíma við lækkandi bílaverð, minni framlegð og aukna samkeppni frá Kína. Margir bílaframleiðendur hafa ráðist í umfangsmiklar hópuppsagnir og lokað verksmiðjum upp á síðkastið.