Hlutabréfaverð Nike hefur hækkað um 13% í viðskiptum fyrir opnun markaða en árshlutauppgjör bandaríska íþróttavörurisans fór fram úr væntingum fjárfesta.

Tekjur Nike á öðrum fjórðungi fjárhagsársins, frá september til nóvember, námu 13,3 milljörðum dala og jukust um 17% frá sama tímabili í fyrra. Fyrirtækið sagði að söluvöxtur hafi verið á öllum mörkuðum. Athygli vakti að sala á skófatnaði í Norður-Ameríku jókst um 39% á milli ára og nam nærri 4 milljörðum dala.

Hlutabréf annarra íþróttavörufyrirtækja hafa hækkað eftir uppgjör Nike, sem var birt í gærkvöldi. Hlutabréfaverð Adidas hefur hækkað um 7,5%, Puma um 8,7% og JD Sports um 5,7%.