Hlutabréf í bandaríska bílaframleiðandanum Nikola hafa hækkað um 37% frá opnun markaðar vestanhafs eftir að fyrirtækið tilkynnti að Mary Chan sem nýjan framkvæmdastjóra.
Chan er fyrrum forstjóri General Motors en Steve Grisky, sem einnig starfaði um árabil hjá GM, verður áfram forstjóri Nikola.
Hlutabréf Nikola hafa hækkað um 81% síðastliðna fimm daga en gengið tók við sér í síðustu viku þegar fyrirtækið tilkynnti um að fyrsti vörubíllinn með vetnisrafali yrði afhentur í lok mánaðar.
Bílaframleiðandinn hefur ekki átt sjö dagana sæla en gengið hrundi í lok ágúst eftir að fyrirtækið tilkynnti um sölu á breytanlegum skuldabréfum að fjárhæð 325 milljón bandaríkjadala sem samsvarar ríflega 43 milljörðum íslenskra króna.
Nikola hefur hingað til sérhæft sig í að framleiða þunga rafknúna vörubíla og var fyrirtækið það fyrsta til að selja tvinnbíla sem gengu fyrir bæði rafmagni og metangasi.
Samhliða tilkynningunni um skuldabréfaútboðið greindi fyrirtækið frá því að óvissa ríkir um hvenær framleiðsla á rafknúnum vörubílum fyrirtækisins geti haldið áfram eftir að fyrirtækið innkallaði 209 bíla nýverið eftir eldsvoða í einum bíl.
Rannsókn leiddi í ljós að galli í rafgeyma bílsins hafi verið orsökin af eldsvoðanum.
Nikola á enn langt í land með að ná vopnum sínum en gengið hefur fallið um 28% á árinu.
Gengið stóð hæst í 66 Bandaríkjadölum árið 2020 en stendur nú í 1,6 dölum.