Hrein skortstaða Íslandsbanka í Nova fór í 0,54% útgefins hlutafjár fjarskiptafélagsins á mánudaginn og var því tilkynnt til Seðlabanka Íslands.
Ætla má að skortstaðan sé í gegnum Íslandssjóði eða fyrir hönd viðskiptavinar bankans.
Tilkynna þarf um allar hreinar skortstöður í skráðu félagi sem fara yfir 0,5 prósent af hlutafé þess til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Sé miðað við gengi Nova í gær var um 83 milljón króna skortstöðu að ræða en bankinn var með um 19,8 milljón hluti í fjarskiptafélaginu að láni.
Hlutabréfaverð Nova lækkaði um 3,3% í viðskiptum dagsins en Íslandsbanki lokaði hluta af skortstöðu sinni í gær og fór hún undir 0,5% á ný, samkvæmt tilkynningu til SÍ.
Hrein skortstaða bankans í fjarskiptafélaginu stóð í 0,42% útgefins hlutafjár í gær.
Nova birti árshlutauppgjör 31. október en fjarskiptafélagið hagnaðist um 322 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 266 milljónir á sama tímabili í fyrra.
Hagnaðurinn á þriðja fjórðungi jókst um 20% milli ára.
Hlutabréfaverð Nova tók kipp í kjölfarið og fór úr um 3,82 krónum í 4,22 krónur sem samsvarar rúmlega 10%.
Skorstaðan fór yfir tilkynningarmörkin á mánudaginn en gengi Nova hefur lækkað um rúm 4% í vikunni.
Þrjár tilkynntar skortstöður á árinu
Afar sjaldgæft er að fjárfestar skortselji tiltekin félög í íslensku Kauphöllinni en þrjár skortstöðutilkynningar hafa borist fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands á árinu.
Allar voru stöðurnar teknar af Íslandsbanka en bankinn skortseldi Kviku banka í júnímánuði, fasteignafélagið Kaldalón í júlí og svo nú síðast Nova.
Þar áður barst síðasta tilkynning um skortstöðu árið 2022 þegar vogunarsjóðurinn Algildi og Kvika eignastýring skortseldu tryggingarfélagið VÍS.