Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur farið fram á að lyfjafyrirtækin Novo Nordisk og Eli Lilly lækki verulega verð á þyngdarstjórnunar- og sykursýkislyfjum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur farið fram á að lyfjafyrirtækin Novo Nordisk og Eli Lilly lækki verulega verð á þyngdarstjórnunar- og sykursýkislyfjum.

„Ef verð á þessum lyfjum lækka ekki umtalsvert þá getur það leitt til gjaldþrots bandaríska heilbrigðiskerfisins,“ segir í sameiginlegri skoðanagrein Biden og Bernie Sanders öldungadeildarþingmanns sem birtist hjá USA Today í dag.

„Ef Novo Nordisk og önnur lyfjafyrirtæki neita að lækka verulega verð á lyfseðilsskyldum lyfjum í landinu okkar, þá munum við gera allt sem í valdi okkar stendur til að leggja stein í götu þeirra.“

Listaverð á 2 mgr. pakka af Ozempic í Bandaríkjunum kostar 935 dollara eða um 130 þúsund krónur, að því er kemur fram í frétt Reuters. Þá kostar pakki af Wegovy lyfinu 1.349 dollara, eða hátt í 190 þúsund krónur, samkvæmt heimasíðu danska lyfjafyrirtækisins.

Hlutabréfaverð Novo Nordisk hafði fallið um 0,4% í morgun áður en Bloomberg birti frétt um skoðanagrein Biden og Sanders, samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen. Þegar fréttin er skrifuð hefur hlutabréfaverð Novo lækkað um 2,3% frá opnun markaða.

Auk þess hefur gengi hlutabréfa bandaríska lyfjafyrirtækisins Eli Lilly lækkað um meira en 2% í viðskiptum fyrir opnun markaða.