Hlutabréf Play náðu sínu lægsta dagslokagengi frá skráningu í 14,1 krónu á hlut eftir 7,2% lækkun í 171 milljónar króna veltu í dag. Hlutabréfaverð Play er nú meira en 20% undir 18 króna útboðsgenginu í frumútboði flugfélagsins í júní 2021.
Play tilkynnti í gær um 2,3 milljarða króna hlutafjáraukningu á útgáfugenginu 14,6 krónur á hlut. Félagið tilkynnti einnig í uppgjörstilkynningu að það myndi ekki ná markmiðum um rekstrarhagnað á seinni hluta ársins.
Á aðalmarkaði Kauphallarinnar var 3,2 milljarða króna velta. Fjórðungur veltunnar var með hlutabréf Eimskips sem hækkuðu um 3,8%. Gengi flutningafélagsins stendur nú í 545 krónum. Eimskip skilaði einnig uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung í gær. Hagnaður félagsins jókst um meira en þriðjunga og nam rúmum 4 milljörðum.
Hlutabréf Festi hækkuðu um 1,6% í rúmlega hundrað milljóna króna veltu. Magnús Kr. Ingason, fjármálastjóri og starfandi forstjóri Festi, keypti hlutabréf í smásölufyrirtækinu fyrir 28,2 milljónir á genginu 188 krónur í dag. Gengi félagsins endaði daginn í 190 krónum.