Hlutabréfaverð Regins hefur hækkað um meira en 5% í yfir 150 milljóna króna veltu í morgun. Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins stendur nú í 26,0 krónum á hlut. Til samanburðar var dagslokagengi félagsins síðast hærra um miðjan febrúar.

Reginn tilkynnti eftir lokun markaða í gær um að Halldór Benjamín Þorbergsson hefði verið ráðinn forstjóri fasteignafélagsins. Halldór Benjamín, sem hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins undanfarin sjö ár, tekur við sem forstjóri Regins af Helga S. Gunnarssyni fyrri hluta sumars.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um eitt prósent í fyrstu viðskiptum í dag. Auk Regins þá hafa hlutabréf Sjóvár, Íslandsbanka, Nova, VÍS og Reita hækkað um meira en 2% ‏það sem af er degi.