Hlutabréfaverð Regins hefur hækkað yfir 6% það sem af er degi í 141 milljón króna veltu, eftir að fasteignafélagið tilkynnti um yfirtökutilboð sitt á Eik fasteignafélagið í nótt.
Reginn tók síðast sambærilegt stökk þegar félagið tilkynnti um ráðningu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar í stöðu forstjóra en þá hækkaði hlutabréfaverðið um 5% við opnun markaðar.
Hlutabréfaverð Eikar hækkaði einnig í dag eftir fréttirnar en félagið hefur hækkað um 4,8% í næstum 50 milljón króna viðskiptum.
Eins og Viðskiptablaðið greindi frá því í nótt lagði stjórn Regins fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar eftir miðnætti.
Verði tilboðið samþykkt verður markaðsvirði félagsins 77 milljarðar, sem þýðir að það verður eitt stærsta félag Kauphallarinnar. Gangi þessar áætlanir eftir mun félagið „sækja fram undir nýju nafni“.