Hlutabréf í bandaríska fyrirtækinu Bath & Body Works hafa hækkað um rúmlega 22% frá því í byrjun mánaðar. Gengi fyrirtækisins stendur nú í 36,9 dölum á hvern hlut, sem er töluverð hækkun frá því um miðjan nóvember þegar hlutabréfaverð þess var í 29 dölum.

Fyrirtækið, sem staðsett er í Columbus í Ohio-ríki, framleiðir ýmis konar handsápur, ilmkerti og húðvörur.

Í lok nóvember tilkynnti fyrirtækið að Gina Boswell, forstjóri Bath & Body Works, myndi taka þátt í Morgan Stanley Global Consumer & Retail ráðstefnunni sem fer fram á morgun.

Samkvæmt uppgjöri fyrirtækisins seldi Bath & Body Works einnig vörur fyrir 1,5 milljarð dala á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Það er hins vegar 2,6% minni sala miðað við sama tímabil í fyrra þegar fyrirtækið seldi vörur fyrir 1,6 milljarð dala.

„Afkoma okkar á fjórðungnum einkenndist af sterku vöruúrvali og hagræðingaraðgerðum. Teymið hefur fylgst vel með vöruúrvali yfir hátíðirnar og erum við dugleg að eltast við eftirspurnina,“ segir Gina Boswell.