Walgreens Boots Alliance, sem rekur bandarísku apótekakeðjuna Walgreens, tilkynnti í dag lokun 1.200 verslana á næstu þremur árum. Tim Wentworth, nýi forstjóri fyrirtækisins, reynir nú að snúa við Walgreens sem glímir við erfitt rekstrartímabil.
Hlutabréf fyrirtækisins hafa tekið stökk eftir tilkynninguna og hafði gengi þess hækkað um 13,4% þegar fréttin var skrifuð.
Þrátt fyrir hækkun dagsins eru hlutabréf Walgreens í 30 ára lægð og hafa lækkað um 65% á þessu ári, sem þýðir að fyrirtækið er með verstu afkomu allra S&P 500-fyrirtækja.
Lyfjakeðjur vestanhafs standa nú frammi fyrir mörgum áskorunum þar sem neytendur forðast dýrari matvörur og þrýstingur eykst á þann pening sem apótek reiða sig á frá milliliðum fyrir það að fylla út lyfseðla.
„Þessi viðsnúningur mun taka tíma en við erum fullviss um að hann muni skila verulegum fjárhagslegum ávinningi til neytenda þegar til lengri tíma er litið,“ segir Wentworth.