Hlutabréf Xiaomi hafa tekið á flug eftir að tæknifyrirtækið afhjúpaði sinn fyrsta rafbíl. Hinn rafknúni fólksbíll mun koma til með að keppa við Tesla og önnur rafbílafyrirtæki um markaðshlutdeild á kínverskum rafbílamarkaði.

Gengi félagsins hækkaði um 12% í Hong Kong í dag, á fyrsta markaðsdegi eftir páska, en bíll Xiaomi var kynntur í síðustu viku. Fréttamiðillinn WSJ greinir einnig frá því að hlutabréf Xiaomi hafi hækkað um 39% undanfarna 12 mánuði.

Kínverska fyrirtækið Xiaomi, sem er með höfuðstöðvar í Peking, hefur verið þekktast fyrir snjallsíma sína. Í lok síðustu viku kynnti fyrirtækið þó til leiks SU7-bílinn sinn sem kostar í kringum 30 þúsund dali.

Áætlað er að afhending bílsins hefjist í þessari viku en Xiaomi fékk rúmlega 90 þúsund pantanir á innan við sólarhring. Búist er við því að fyrirtækið muni afhenda rúmlega 5-6 þúsund bíla í apríl og verði salan fyrir allt árið þá 55-70 þúsund einingar.