Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hefur hækkað um 6,7% frá því að Trump frestaði gagn­kvæmum tollum um 90 daga síðastliðinn mið­viku­dag.

Fjölmörg félög, sem höfðu lækkað tölu­vert í að­draganda ákvörðunarinnar, hafa tekið við sér á síðustu fjórum við­skipta­dögum en til að mynda hefur gengi Ocu­lis hækkað 22,6% á tíma­bilinu.

Hluta­bréfa­verð Ocu­lis hefur farið úr 1.860 krónum á hlut í 2.290 krónur á hlut en gengi félagsins hækkaði um 5,5% í við­skiptum dagsins.

Hluta­bréfa­verð fjár­festingarfélagsins Skeljar hefur hækkað um tæp 9% á síðustu fimm við­skipta­dögum en gengi félagsins fór upp um 2,6% í dag. Dagsloka­gengi Skeljar var 15,9 krónur.

Hluta­bréf í JBT Marel hækkuðu um rúm 3% og var dagsloka­gengið 12.700 krónur á hlut. Gengi JBT Marel en enn um 25% lægra en fyrir mánuði síðan.

Gengi Heima hækkaði um tæp 3% í 163 milljón króna veltu og var dagsloka­gengið 35,4 krónur á hlut.

Hluta­bréfa­verð Festi hækkaði um 3,5% og lokaði í 300 krónum á hlut. Gengi Festi hefur nú hækkað um rúm 7% á árinu sem næst­mesta hækkun ársins á eftir gengi Hampiðjunnar sem hefur hækkað um rúm 9%.

Heildar­velta á markaði var 3,4 milljarðar.