Hlutabréfasjóðir réttu verulega úr kútnum á síðasta ári eftir brösugt ár þar á undan. Meðalávöxtun sjóða í flokki íslenskra hlutabréfa nam 14,1%.
Til samanburðar hækkaði OMXI GI, arðgreiðsluleiðrétt heildarvísitala aðalmarkaðar Kauphallarinnar, um 14,7% á árinu 2024.
SIV Hlutabréf, sjóður á vegum SIV eignastýringar, dótturfélags Skaga, var fremstur meðal íslenskra hlutabréfasjóða á síðasta ári með 23,75% ávöxtun. SIV eignastýring hlaut starfsleyfi sérhæfðra sjóða í júní 2023.
Þar á eftir kom sérhæfði sjóðurinn Hekla, undir Landsbréfum, sem skilaði 23,24% ávöxtun. LEQ UCITS ETF, annar sjóður undir Landsbréfum, skilaði tæplega 20% ávöxtun.
Á eftir koma sjóðir á vegum Íslandssjóða, Stefnis og Kviku. Aðeins einn hlutabréfasjóður skilaði neikvæðri ávöxtun á síðasta ári, en það er Akta Stokkur, undir AKTA sjóðum.
Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu 2023 þegar hlutabréfasjóðir áttu í miklum erfiðleikum með að ná fram jákvæðri ávöxtun.
Til marks um það var sá hlutabréfasjóður sem skilaði mestri ávöxtun árið 2023 arðgreiðslusjóður Stefnis, með rúmlega þriggja prósenta ávöxtun. Þá voru einungis sjö hlutabréfasjóðir í heildina, í flokki íslenskra hlutabréfa, sem náðu jákvæðri ávöxtun á árinu 2023, þar af fimm þeirra undir 1% og allir undir ársverðbólgu.
Til samanburðar lækkaði OMXI GI, arðgreiðsluleiðrétt heildarvísitala aðalmarkaðar Kauphallarinnar, um tæpt prósentustig árið 2023. Vísitalan lækkaði þá um 12% árið 2022, eftir talsverðar hækkanir á árunum 2019-2021.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.