Tölu­verðar breytingar áttu sér stað í eignasöfnum ís­lensku hluta­bréfa­sjóðanna í maí 2025.

Vægi líftækni­lyfja­fyrir­tækisins Al­vot­ech og Ís­lands­banka jókst mest hjá sjóðunum. Á sama tíma og vægi Festi, Símans og Arion banka minnkaði.

Sam­kvæmtsaman­tekt Akkurs á mánaðar­legum breytingum í eignasöfnum tóku sjóðirnir mark­verða stöðu í Al­vot­ech, sem hækkaði um heilar 3,4% að meðaltali milli mánaða í safni sjóðanna.

Sér­stak­lega jókst vægið hjá sjóðunum Kvika – Inn­lend hluta­bréf (+6,2%), Akta Stokkur (+5,2%) og IS Hluta­bréfa­sjóðnum (+4,3%).

Hafa ber í huga að gengi Alvotech hækkaði um 46% í mánuðinum.

Í lok mánaðar var Al­vot­ech með 29,9% vægi í Kvika – Inn­lend hluta­bréf á meðan vægi líftækni­lyfjafélagsins í Akta Stokkur nam 28,6%.

Al­vot­ech birti árs­hluta­upp­gjör í byrjun maímánaðar og hækkaði gengið tölu­vert í mánuðinum.

Viðsnúningur hefur þó orðið á gengi Al­vot­ech í júnímánuði og hefur hluta­bréfa­verð félagsins lækkað um tæp­lega 25% í mánuðinum.

Vægi Ís­lands­banka í eignasöfnum tíu stærstu sjóðanna hækkaði að meðaltali um 2,1%, með lang­mestu inn­streymi frá Stefni – Arð­greiðslu­sjóði (+14,4%), sem var stærsta ein­staka breytingin milli mánaða.

Á sama tíma minnkuðu sjóðirnir við stöður sínar í Festi, þar sem hlut­fall Festi í eignasöfnum lækkaði um heilar 2,0% að meðaltali milli mánaða.

Mest dró úr eign Stefnis – Inn­lend hluta­bréf Vogunar sem fækkaði hlutum sínum í Festi í safni um 2,4%. Lands­bréf – Önd­vegis­bréf dró úr stöðu sinni í Festi um 5,2%.

Síminn var einnig undir söluþrýstingi, sér­stak­lega hjá Akta Stokki sem minnkaði stöðu sína um 3,0%, og hjá Stefni – Inn­lend hluta­bréf um 0,5%.